• hlaup

    Langar þig að hlaupa?

    UFA Eyrarskokk býður upp á hlaupaæfingar við allra hæfi. Kynntu þér málið og prófaðu að kíkja á æfingu.

    Nánari upplýsingar hér.

     

  • MÍ 11-14 2021
  • MÍ 15-22 ára 2021

    UFA býður upp á frjálsíþróttaæfingar fyrir alla aldurshópa. Við getum bætt við okkur iðkendum í öllum aldursflokkum. Nánari upplýsingar hér.

Verulegar framfarir - lítil fyrirhöfn

Haraldur Ingólfsson segir frá

 

Ég tók þátt í Akureyrarhlaupinu á dögunum - hljóp 10 kílómetrana í annað sinn í því hlaupi. Fyrir hlaupið í fyrra setti ég mér það markmið að komast lifandi í mark en fyrir hlaupið í ár ákvað ég að stefna á að fara vegalengdina á innan við 50 mínútum. Það er ekkert sérstakur tími í sjálfu sér og er ef til vill ekki í frásögur færandi nema þá helst fyrir þá staðreynd að í fyrra var ég tólf mínútum lengur að hlaupa sömu vegalengd.

 

Það er reyndar alls ekki ætlun mín að vera neitt að monta mig af þessum framförum, enda finnst mér ekkert sérstakt að hlaupa 10 kílómetrana á rétt innan við 50 mínútum. Mig langar hins vegar til þess að deila reynslu minni með fólki sem ef til vill hefur verið eða er í svipuðum sporum og ég var fyrir um ári. Þar á ég við fólk sem telur sér trú um að það sé alveg hroðalega erfitt og ægileg fyrirhöfn að hlaupa þessa vegalengd og í öðru lagi að hlaupa nógu oft og langt til þess að taka einhverjum framförum. Það sem ég vil segja er í stuttu máli: Þetta er ekkert mál!

 

 

Einfalt og auðvelt

Það sem ég hef gert til þess að bæta mig er á færi nánast hver sem er. Þrátt fyrir að stundum hafi ég másað og blásið, svitnað og púlað hef ég í raun ekki gert neitt í sumar sem ekki var bæði einfalt og auðvelt þegar litið er á heildarmyndina. Og þegar öllu er á botninn hvolft þarf ekki að fara svo mikill tími í hlaupin – í að minnsta getur maður alltaf miðað við tímann sem fer í ýmislegt fánýtt og gagnslaust sem maður gerir.

Ég hef eytt tímanum í ýmislegt fánýtt og gagnslaust í gegnum tíðina – og sumt af því var beinlínis skaðlegt og stórhættulegt. Þegar ég var 17 ára byrjaði ég að reykja. Fannst það nauðsynlegt til þess að vera álitinn töffari. Á unglingsárunum stundaði ég frjálsar af nokkru kappi og meðal annars langhlaup. Áhuginn og getan til þess að ná árangri hurfu þó fljótt með tóbakinu. Ég reykti meira og minna samfellt í 21 ár, lengst af hátt í pakka af sígarettum á dag en síðan pípu síðustu árin. Fyrir tæpum þremur árum tók ég ákvörðun um að hætta og hætti þá strax sama kvöld og ég ákvað að hætta. Nú eru liðnir meira en þúsund dagar án reyks – ef frá eru taldar óbeinar reykingar á fyrrum vinnustað mínum. En þessi pistill átti að vera um hlaup en ekki reykingar, gætir þú, lesandi góður, nú hugsað með þér. Rétt er það – en heldur þú að ég hefði bætt mig svo mikið sem raunin er með því að hlaupa en halda jafnframt áfram að reykja? Af og frá. Ég byrjaði reyndar ekki að hlaupa strax þegar ég hætti að reykja – ef frá er talið að ég byrjaði að hlaupa aðeins í spik en það er allt annar handleggur. Miðað við reynslu mína af því að hlaupa reglulega í sumar er ég hins vegar fullviss um að hver sá sem hættir að reykja ætti að byrja að hlaupa samdægurs, hvort tveggja til að fá einhverja nautn í staðinn fyrir reykingarnar og til þess að flýta fyrir endurheimt heilsunnar. Munurinn sem ég finn á þeim tæpu þremur árum sem liðin eru síðan ég hætti að reykja er auðvitað stórkostlegur en hann hefur orðið enn áþreifanlegri með hlaupunum. Hlaupin eru líka um það bil að verða að ástríðu, nautn eins og tóbaksnotkunin var forðum (eða það hélt ég þá).

 

 

 

Komst alla leið, lifandi!

Fyrir rétt rúmu ári skellti ég mér í 10 kílómetrana í Akureyrarhlaupinu án þess að hafa þjálfað mig sérstaklega fyrir það hlaup. Einhvern tímann í fyrrasumar ákvað ég að tími væri kominn til að snúa við blaðinu en tók hlaupin þó ekkert mjög alvarlega í fyrrasumar, hljóp ekki nema að jafnaði einu sinni í viku frá því í júlí fram í september og ekki nema um 4-6 kílómetra í hvert skipti. Þrátt fyrir að hlaupa þetta lítið fann ég þó fljótt að þolið batnaði eitthvað og smátt og smátt reyndist mér auðveldara að hlaupa þessa vegalengd.

Þegar leið að Akureyrarhlaupinu í fyrrahaust varð mér ljóst að ef ég ætlaði að vera ánægður með sjálfan mig þýddi ekkert að skokka með í þriggja kílómetra skemmtiskokkinu – með fullri virðingu fyrir þeim sem það gera. Mér fannst ég þurfa meiri áskorun þannig að ég ákvað að setja stefnuna á 10 kílómetrana. Á miðvikudeginum fyrir hlaupið ákvað ég að prófa leiðina, fór nokkurn veginn sömu leið og hlaupin var í sjálfu Akureyrarhlaupinu, aðallega til þess að komast að því hvort ég gæti hlaupið þessa vegalengd og lifað af. Ég komst alla leið án þess að lenda í lífsháska og mætti því galvaskur í hlaupið á laugardeginum. Hlaupið varð mér erfitt, ég fór of hratt af stað og að auki var hlaupaleiðin í fyrra nokkuð erfið, meðal annars upp alla Hörgárbrautina og síðan á móti vindi suður Hlíðarbrautina. Samt komst ég alla leið en varð reyndar síðastur allra í hlaupinu. Það skipti þó engu því ég var ánægður með að komast alla leið, fagnaði meira að segja þegar ég komi í markið þrátt fyrir að ég vissi að allir voru komnir í mark á undan mér. Ég hljóp 10 kílómetrana á 61 mínútu og 25 sekúndum og fannst sjálfum sem það væri afar slakur tími en það skipti mig engu máli á þeirri stundu því ég komst alla leið. Það fannst mér frábært! Þá strax setti ég mér hins vegar það markmið að hlaupa aftur að ári og verða þá ekki síðastur!

 

 

 

Bætti mig um fimmtung á einu ári!

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er hins vegar hvorki sú að vekja athygli á skaðsemi reykinga né heldur að opinbera það hve lélegur ég var í fyrra. Ekki heldur að monta mig af því að hafa bætt mig verulega. Með þessum skrifum vil ég vekja athygli fólks á því hve miklum framförum mögulegt er að taka án mikillar fyrirhafnar. Ég vil ná til fólks sem hefur lítið sem ekkert hlaupið eða hreyft sig að öðru leyti. Ég vil bara sýna sjálfan mig og segja: Ég gat þetta og þess vegna getur þú þetta!

En hvað hef ég þá gert síðan í fyrra? Hvað varð til þess að ég bætti tíma minn í 10 kílómetrunum um meira en 12 mínútur á einu ári? Síðastliðið vor ákvað ég að taka hlaupin fastari tökum en í fyrra. Það tók mig mánuð að hugsa um að hlaupa en síðan gerðist það seint í júní að ég hleypti í mig kjarki og mætti síðdegis einn mánudag inn í Kjarnaskóg. Ég hafði lesið um það á heimasíðu UFA og séð auglýst að skokkhópur Dúnnu hittist tvisvar í viku til þess að skokka saman og gera á eftir nokkrar styrktar- og teygjuæfingar. Ég sé ekki eftir þessari ferð inn í Kjarnaskóg enda hef ég haldið áfram að mæta þrátt fyrir að í fyrstu liði mér eins og allir væru miklu betri en ég, hefðu meira þol og væru í betri þjálfun en ég og að ég væri vonlaust tilfelli, alltof bjartsýnn á eigin getu og myndi aldrei geta bætt mig að neinu ráði. Fljótlega fór ég þó að átta mig á því að þessar úrtöluraddir í höfðinu á mér höfðu rangt fyrir sér.

Núna hleyp ég reglulega, ekki bara tvisvar í viku með Dúnnu og félögum, heldur einnig með sjálfum einu sinni til þrisvar í viku til viðbótar. Með stuttri upphitun og nokkrum æfingum á eftir fara samt sem áður ekki nema fáeinar klukkustundir í hlaupin í viku hverri. Það sem er hins vegar mest um vert er að árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Í Akureyrarhlaupinu á dögunum hljóp ég 10 kílómetrana á 49:05 – sem er bæting um 12 mínútur og 20 sekúndur á einu ári. Rétt er þó að taka fram að hlaupaleiðin var heldur auðveldari nú en í fyrra. Fyrir ári síðan setti ég mér það markmið að verða ekki aftur síðastur í hlaupinu en ákvað síðan að setja markið hærra og stefndi á 50 mínútna markið. Það er yndisleg tilfinning að ná þeim markmiðum sem maður setur sér – og það án þess að leggja neitt sérstaklega mikið á sig. Ég hef hlaupið 2-5 sinnum í viku frá því í júní, fyrst 7-8 kílómetra í hvert skipti en nú síðsumars oftast 10 kílómetra. Þetta er allt og sumt. Ætlar þú ekki að slást í hópinn?

Fréttir
Á döfinni
Æfingar
Hlaupaleiðir og kort
Götuhlaup
Frásagnir og greinar
Að byrja
Tenglar
1. maí hlaup
Akureyrarmaraþon
Gamlárshlaup
Stigahlaup 2002
Akureyrarhlaup
Vetrarhlaup UFA
1998
1999
2000
2001
2002
2003
2004
2005
2006
1998
1999
2000
2001
Úrslit
Framkvæmd
Úrslit
Framkvæmd
1998
1999
2000
2001
2002
2003
2004
2005
2006
Framkvæmd
Úrslit
Leiðalýsing
Úrslit
Leiruhlaup
Páskahlaup
1. maí hlaup
Staðan
Leiðalýsing
Kort
Úrslit
Leiðalýsing
Kort
Úrslit
Leiðalýsing
Kort
Úrslit
2002
2003
2004
2005
2006
2003-2004
2004-2005
2005-2006
Til sölu
Óskað eftir
Mótaskrá UFA
Mótaskrá FRÍ
Mót UFA og úrslit
2003
1998
1999
2000
2001
2002
2003
2004
2007
2006
2005
2003
2002
2001
2000
Innanhúss
Utanhúss
1998
1999
2000
2001
2002
2003
2004
2005
1998
1999
2000
2001
2002
2003
2004
Veturinn 2006-2007
Afsláttarreglur
Stjórnin
Ársskýrsla

Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA