Baldvin Þór Magnússon heldur áfram að gera það gott í hlaupunum og sló um helgina 39 ára gamalt Íslandsmet Jóns Diðrikssonar í 1500 m hlaupi utanhúss. Baldvin hljóp á tímanum 3:40,74 sem er sekúndubæting á fyrra meti.
Þetta er þriðja Íslandsmetið sem Baldvin slær á undanförnum vikum. Metaregnið hófst 7. febrúar þegar hann hljóp 3000 m innanhúss á 7:53,92 sem var 5 sekúndum undir Íslandsmeti Hlyns Andréssonar. Sá tími fékkst þó ekki staðfestur sem Íslandsmet þar sem hlaupið var á 300 m braut. Baldvin endurtók þá leikinn og hljóp á 7:53,72 á 200 m braut 13. mars. Hálfum mánuði síðar bætti Baldvin síðan Íslandsmet Hlyns Andréssonar í 5000 m hlaupi utanhúss um sjö sekúndur þegar hann hljóp á 13:45,66.
Baldvin Þór er fæddur á Akureyri 1999 og ólst þar upp fyrstu æviárin en flutti síðan til Bretlands með foreldrum sínum, Magnúsi Þór Magnússyni og Katrínu Snædal Húnsdóttur. Hann dvaldi flest sumur á Akureyri sem barn og keppti á nokkrum mótum undir merkjum UFA. Hann stundar nú háskólanám í Bandaríkjunum á íþróttastyrk.
Það er spennandi að fylgjast með þessum unga öfluga íþróttamanni og ljóst að fleiri Íslandsmet eru í hættu.