• hlaup

    Langar þig að hlaupa?

    UFA Eyrarskokk býður upp á hlaupaæfingar við allra hæfi. Kynntu þér málið og prófaðu að kíkja á æfingu.

    Nánari upplýsingar hér.

     

  • MÍ 11-14 2021
  • MÍ 15-22 ára 2021

    UFA býður upp á frjálsíþróttaæfingar fyrir alla aldurshópa. Við getum bætt við okkur iðkendum í öllum aldursflokkum. Nánari upplýsingar hér.

Fimm iðkendur UFA í landsliðshóp 2023 og fjórir í úrvalshóp FRÍ

Birnir á MÍ 15-22 ára (Mynd frá FRÍ)
Birnir á MÍ 15-22 ára (Mynd frá FRÍ)

Nú þegar árinu 2022 er að ljúka þá getum við hjá UFA verið alsæl með árangur iðkenda okkar á liðnu ári og ber það að þakka öflugum og duglegum iðkendum ásamt hæfileikaríkum þjálfurum sem bæði kenna og hvetja.

Landslið FRÍ
Landslið FRÍ er valið í alþjóðleg landsliðsverkefni og er skipað fremsta frjálsíþróttafólki landsins hverju sinni. Ungmennafélag Akureyrar á fimm iðkendur í landsliðshópnum sem kynntur var fyrr í desember.

  • Birnir Vagn Finnsson (19 ára) byrjaði ungur að æfa frjálsar hjá UFA fyrir áratug eða svo. Unnar Vilhjálmsson, fyrsti þjálfari Birnis, sagði við hann á þriðju æfingu "ef þú heldur svona áfram og ert duglegur að æfa þá kemstu í landsliðið um tvítugt". Unnar reyndist sannspár með það og nú fögnum við árangrinum þar sem Birnir var valinn í landsliðið bæði í stökkgreinum og þraut. Auk þess að vera öflugur iðkandi hefur hann tekið að sér þjálfun annarra iðkanda hjá UFA undanfarin ár og er í þjálfarateymi meistaraflokks UFA í vetur.

  • Baldvin Þór Magnússon (23 ára) er ein skærasta frjálsíþróttastjarna Íslands. Hann býr í Bandaríkjunum en hefur verið í landsliði Íslands undanfarin ár. Sem dæmi um afrek hans má nefna að hann komst í úrslit í 3.000m hlaupi á HM innanhúss í Belgrad í Serbíu í vor auk þess sem hann á Íslandsmet í 1.500m, 3.000m og 5.000m hlaupi.

  • Sindri Lárusson (29 ára) gekk til liðs við UFA á árinu 2022 eftir að hafa flutt norður á árinu 2021. Hann er öflugur kúluvarpari og hefur einnig tekið að sér þjálfun annarra iðkenda í meistaraflokki UFA.

  • Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (32 ára) er feiknaöflugur langhlaupari sem æfir með UFA-Eyrarskokki. Hún varð á árinu Íslandsmeistari í 3.000m hindrunarhlaupi kvenna. Náði fjórða besta tíma frá upphafi í hálfmaraþoni kvenna í Kaupmannahöfn og varð fyrst íslenskra kvenna í 10km hlaupi kvenna í Reykjavíkurmaraþoni. Íslandsmeistari í hálfmaraþoni kvenna 2022.

  • Hafdís Sigurðardóttir (35 ára) er ein öflugasta frjálsíþróttakona Íslands, enda á hún Íslandsmetið í langstökki í kvennaflokki. Hún er í þjálfarateymi meistaraflokks UFA.

Úrvalshópur FRÍ
Fjögur ungmenni úr röðum UFA hafa verið valin af Frjálsíþróttasambandi Íslands (FRÍ) í Úrvalshóp FRÍ fyrir ungmenni á aldrinum 15-19 ára. Markmið Úrvalshóps er sporna gegn brottfalli unglinga úr frjálsíþróttum og skapa vettvang fyrir frjálsíþróttaunglinga landsins til að kynnast utan keppni. Til þess að vera valinn í Úrvalshóp unglinga er farið eftir ákveðnum viðmiðum sem segir til um góðan árangur. Viðmiðin verða erfiðari því sem unglingarnir eldast svo það kostar mikla æfingu að halda sig í hópnum.
Ungmennin fjögur í úrvalshópnum eru:

  • Róbert Mackay – 100m / 200m / 400m
  • Alexander Breki Jónsson – Kúluvarp
  • Elena Soffía Ómarsdóttir – Spjótkast
  • Sigurlaug Anna Sveinsdóttir – Kúluvarp

Íslandsmeistarar
UFA iðkendur hafa verið sigursælir á Meistaramótum Íslands á árinu og á félagið 21 Íslandsmeistara (í mismunandi aldursflokkum) í 94 greinum á árinu. Auk þeirra á félagið fjölmarga öfluga iðkendur sem hafa bætt sig í ótal greinum á árinu.

Sjálfboðaliðar
Við erum endalaust þakklát fyrir sjálfboðaliðana okkar sem hafa gert okkur mögulegt að halda fimm stór frjálsíþróttamót, auk tveggja almenningshlaupa á árinu. Það er félaginu ómetanlegt að eiga að svona góðan hóp fólks sem er reiðubúinn til aðstoða við hvers kyns mótahald.

Feðgatugþraut
Síðast en ekki síst viljum við nefna þá feðga Finn Friðriksson og Birni Vagn Finnsson og feðgatugþraut þeirra síðusumars þar sem þeir feðgar öttu kappi á Laugum í Reykjadal og söfnuðu áheitum fyrir UFA, ásamt því að vekja jákvæða athygli á íþróttinni. Sannarlega frábærar fyrirmyndir fyrir okkur hin. Landinn fjallaði skemmtilega um keppnina þeirra og sjá má frétt RÚV með hlekk á umfjöllunina í Landanum. https://www.ruv.is/frett/2022/09/28/skoradi-a-fimmtugan-fodur-sinn-i-tugthraut


Svæði

 Ungmennafélag Akureyrar   |   UFA