Það var líf og fjör á Þórsvellinum í morgun þegar yfir 300 hlauparar á öllum aldri spreyttu sig í 1. maí hlaupi. Að venju var boðið upp á 400 m hlaup fyrir leikskólabörn, 2 km hlaup fyrir grunnskólabörn og 5 km fyrir alla aldurshópa.
Keppt var um hlutfallslega bestu þátttökuna í grunnskólum bæjarins og nærsveita. Í flokki fjölmennra skóla bar Síðuskóli sigur úr bítum með 10% þátttöku, Naustaskóli var í öðru sæti með 8% þátttöku og Oddeyrarskóli í því þriðja með 6% þátttöku. Í flokki fámennra skóla sigraði Þelamerkurskóli með yfir 40% þátttöku og Valsárskóli var í öðru sæti með 4% þátttöku.
Í 5 km hlaupi var Þorbergur Ingi Jónsson fyrstur á 16:36, annar var Halldór Hermann Jónsson á 18:27 og þriðji var Helgi Rúnar Pálsson á 18:40. Í kvennaflokki var Anna Berglind Pálmadóttir fyrst á 19:33, önnur var Rannveig Oddsdóttir á 20:04 og þriðja var Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir á 21:09.
Því miður fór eitthvað úrskeiðis með tímatökubúnaðinn svo við erum ekki með tíma á nema lítið brot af hlaupurum. Við hörmum þessi mistök og biðjum þáttakendur afsökunar á að hafa ekki staðið okkur hvað það snertir. Farið verður í saumana á því máli og gerðar úrbætur fyrir næstu hlaupaviðburði á vegum félagsins.
Hér má sjá röð keppenda og úrslit í aldursflokkum. Þeir sem hafa einhverjar ábendingar varðandi úrslitin geta komið athugasemdum á framfæri við Rannveigu á netfangið rannodd@gmail.com